Fordæma söngva um fátækt og atvinnuleysi

Leiknum milli Liverpool og Tottenham á laugardagskvöld lauk með 1:1-jafntefli.
Leiknum milli Liverpool og Tottenham á laugardagskvöld lauk með 1:1-jafntefli. AFP/Paul Ellis

Stuðningsmannasamtök enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur segja það ekki vera í anda stuðningsmanna karlaliðs þess að syngja söngva sem gera lítið úr fátækt og atvinnuleysi.

Stuðningsmenn Tottenham heyrðust syngja „Sign on“ á Anfield í Liverpool síðastliðið laugardagskvöld, söng sem gerir lítið úr atvinnuleysi og vísar til þess að atvinnulaust fólk á Englandi þarf að staðfesta það vikulega á vinnumálastofnunum að atvinnuleit þeirra standi enn yfir.

Í yfirlýsingu frá stuðningsmannasamtökum Tottenham var bent á að slíkir söngvar væru ekki viðeigandi enda fátækt og atvinnuleysi viðvarandi hvarvetna á Englandi, þar á meðal á því svæði í Lundúnum þar sem Tottenham heldur til.

„Það að syngja um andstæðingana hefur löngum verið hluti af enskri knattspyrnu og við erum tvístígandi að segja stuðningsmönnum til um hvernig þeir skuli haga stuðningi sínum í garð liðsins. Engu að síður urðum við fyrir vonbrigðum með að heyra „Sign on“ sönginn í útileik á Anfield á laugardag.

Fátækt og atvinnuleysi eru ekki málefni sem ætti að henda gaman að og stríða vegna. Um þessar mundir er krísa um allt England þegar kemur að framfærslu, þar á meðal í Lundúnum. Félagið okkar endurspeglar svæði og samfélag sem er með hvað hraðastan vöxt þegar kemur að atvinnuleysi í landinu.

Við eru með réttu stolt af stuðningi okkar á útivöllum og viljum vekja athygli fyrir hann á jákvæðum forsendum. Mest allan leikinn var stuðningur aðdáenda okkar magnaður þegar liðið stóð sig frábærlega. Stuðningsmenn Tottenham hafa styrkt Marine [utandeildarlið í grennd við Liverpool] með fjármagni og styðja reglulega við matarbanka og samfélagslega aðstoð í Lundúnum.

Það er það sem við stöndum fyrir. „Sign on“ söngurinn er ekki það sem við stöndum fyrir. Við erum Tottenham Hotspur. Við erum betri en þetta,“ sagði í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert