Hann er minn uppáhalds leikmaður

Mané fagnar sigurmarkinu í gærkvöldi.
Mané fagnar sigurmarkinu í gærkvöldi. AFP/Paul Ellis

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska liðsins Liverpool og núverandi sparkspekingur á Sky Sports, segir Sadio Mané vera sinn uppáhalds leikmann í Liverpool-liðinu í dag.

Mané skoraði sigurmark Liverpool í 2:1-sigri gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi en hann hefur leikið frábærlega undanfarið.

„Þegar ég horfi á Liverpool sem stuðningsmaður, er Sadio Mané minn uppáhalds leikmaður. Það er eitthvað við hann, hann leggur sig alltaf allan fram.

Hann, ásamt Mo Salah, hefur gert þetta í fimm ár. Þeir meiðast aldrei, spila 90 mínútur í hverri viku og skila af sér frábærri tölfræði. Þeir hafa gert ótrúlega mikið fyrir félagið.

Ég er mikill aðdáandi Mané og ég get fullvissað ykkur um það að hann sé ekki að fara neitt. Ef hann ætlar til Bayern München þarf hann að fara í gegnum mig,“ sagði Carragher en Mané hefur verið orðaður við þýska stórliðið síðustu daga.

Sjálfur var Mané hógvær í viðtali eftir leikinn.

„Þetta snýst allt um liðið, án liðsins er ég ekki neitt.“

Liverpool-liðið er í mikilli baráttu á öllum vígstöðvum. Liðið er jafnt Manchester City á toppi deildarinnar þó City eigi leik til góða. Þá er Liverpool einnig komið í úrslitaleiki enska bikarsins og Meistaradeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert