Fyrrverandi leikmaður Liverpool þjálfar Dagnýju

Dagný Brynjarsdóttir á að baki 101 A-landsleik fyrir Ísland.
Dagný Brynjarsdóttir á að baki 101 A-landsleik fyrir Ísland. Ljósmynd/@westhamwomen

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Paul Konchesky hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í vikunni en Konchesky, sem var aðstoðarþjálfari West Ham á síðustu leiktíð, tekur við liðinu af Nýsjálendingnum Olli Harder.

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir er samningsbundin West Ham en hún hefur leikið með liðinu frá því í janúar 2021 og verið í lykilhlutverki hjá enska félaginu.

West Ham hafnaði í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð og þá féll liðið úr leik í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar eftir tap gegn Manchester City.

Konchesky, sem er fertugur, lék með liðum á borð við Charlton, Tottenham, West Ham, Fulham, Liverpool og Leicester á ferlinum.

Hann gekk til liðs við Liverpool frá Fulham árið 2010 þegar Roy Hodgson keypti hann til félagsins en hann náði sér aldrei á strik í Bítlaborginni og var seldur árið síðar.

Alls lék Konchesky 347 leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði 9 mörk en hann lék iðulega sem vinstri bakvörður.

Paul Konchesky stýrir West Ham á næstu leiktíð.
Paul Konchesky stýrir West Ham á næstu leiktíð. Ljósmynd/West Ham
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert