Líklega á leið til United

Frenkie De Jong er sterklega orðaður við Manchester United.
Frenkie De Jong er sterklega orðaður við Manchester United. AFP/Pau Barrena

Hollenski knattspyrnumaðurinn Frenkie de Jong gæti verið á leið til enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United.

Það er spænski félagaskiptasérfræðingurinn Gerard Romero sem greinir frá þessu en hann segir Barcelona tilbúið að selja leikmanninn fyrir 75 milljónir punda vegna fjárhagsstöðu félagsins.

De Jong, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við Barcelona frá Ajax sumarið 2019 en spænska félagið borgaði 70 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Alls á hann að baki 138 leiki fyrir Barcelona þar sem hann hefur skorað 13 mörk og lagt upp önnur 17.

De Jong þekkir vel til Eriks ten Hag, sem mun taka við United í sumar, en de Jong og ten Hag unnu saman hjá Ajax frá 2017 til ársins 2019 og náðum frábærum árangri saman.

Spænski félagaskiptasérfræðingurinn Romero segir 95% líkur á því að de Jong fari til United en ten Hag er sagður vilja byggja liðið upp í kringum hollenska miðjumanninn.

mbl.is