Þessir átta eru tilnefndir sem ungi leikmaður ársins í úrvalsdeildinni

Phil Foden kemur til greina sem besti ungi leikmaður tímabilsins.
Phil Foden kemur til greina sem besti ungi leikmaður tímabilsins. AFP/Paul Ellis

Enska úrvalsdeildin hefur gefið út hvaða átta leikmenn koma til greina sem besti ungi leikmaður deildarinnar. Gjaldgengir eru þeir leikmenn sem voru 23 ára eða yngri þegar tímabilið hófst.

Topplið Manchester City á einn leikmann á listanum. Phil Foden er tilnefndur en hann hefur verið frábær á tímabilinu. 

Það sama má segja um Trent Alexander-Arnold hjá Liverpool sem er einnig tilnefndur. Hann er annar tveggja leikmanna á þessum lista sem kemur líka til greina sem leikmaður ársins.

Hinn leikmaðurinn er Bukayo Saka leikmaður Arsenal. Hann og samherji hans Aaron Ramsdale markvörður liðsins koma báðir til greina sem besti ungi leikmaður tímabilsins.

Crystal Palace á einnig tvo fulltrúa á listanum. Tyrick Mitchell og Conor Gallagher koma báðir til greina en sá síðarnefndi er lánsmaður frá Chelsea.

Chelsea á einmitt fulltrúa á listanum. Mason Mount er tilnefndur en hann hefur verið með bestu mönnum liðsins á tímabilinu.

Declan Rice hjá West Ham kemur einnig til greina. Hann hefur leikið frábærlega sem fyrr á miðju liðsins sem endar að öllum líkindum í sjöunda sæti deildarinnar.

mbl.is