Tveir lykilmenn Chelsea tæpir fyrir úrslitaleikinn

N'Golo Kanté.
N'Golo Kanté. AFP/Lindsey Parnaby

Þeir N'Golo Kanté og Mateo Kovacic leikmenn Chelsea eru báðir tæpir vegna meiðsla fyrir úrslitaleik enska bikarsins gegn Liverpool á morgun.

Thomas Tuchel sjóri liðsins segist þó vera tilbúinn að spila þeim báðum þrátt fyrir að þeir verði ekki alveg tilbúnir. Báðir ætla að reyna að taka þátt í æfingu liðsins seinnipartinn í dag.

Kovacic meiddist í leik liðsins gegn Leeds á dögunum en Daniel James fékk beint rautt spjald fyrir ljótt brot á honum.

„Við látum á þetta reyna í dag. Mateo vildi sjálfur reyna og læknateymið okkar gaf grænt ljós á það. Við erum að vonast til þess að hann nái leiknum en það kemur betur í ljós á æfingu í dag.“

Kanté hefur misst af síðustu þremur leikjum liðsins.

„Hann reyndi að æfa í gær. Hann vill spila og vonandi getur hann verið með af fullum krafti í dag og spilað á morgun.“

Aðspurður hvort hann myndi taka áhættu og spila leikmönnunum þrátt fyrir að þeir séu tæpir sagði Tuchel einfaldlega:

„Þetta er augnablikið til að taka áhættur.“

Kovacic (t.h.) fagnar marki gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar …
Kovacic (t.h.) fagnar marki gegn Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar með Antonio Rudiger. AFP/Oscar Del Pozo
mbl.is