Villa kaupir Brassann

Coutinho í leik gegn sínum gömlu félögum í Liverpool á …
Coutinho í leik gegn sínum gömlu félögum í Liverpool á dögunum. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa hefur keypt Brasilíumanninn Philippe Coutinho sem hefur verið á láni hjá liðinu síðan um áramót.

Coutinho, sem er 29 ára gamall, sló í gegn hjá Liverpool eftir að hafa komið þangað frá Inter Milan á Ítalíu 2013. Eftir fimm ár í Bítlaborginni var hann svo seldur til Barcelona á rúmlega 140 milljónir punda en tókst aldrei að slá í gegn þar.

Hann var lánaður til Bayern München þar sem hann vann m.a. Meistaradeildina en sneri aftur til Barcelona að því loknu. Áfram gekk illa hjá Barcelona og í janúar var hann lánaður til Aston Villa en fyrrum samherji hans hjá Liverpool, Steven Gerrard stýrir liðinu. Nú hefur félagið keypt Coutinho á um 17 milljónir punda.

„Þetta eru frábær kaup fyrir Aston Villa. Coutinho er mikill atvinnumaður og áhrifin sem hann hefur á hópinn hafa ekki farið fram hjá neinum síðan hann kom í janúar. Hann er mikil fyrirmynd og yngri leikmenn græða mikið á reynslunni sem hann kemur með,“ sagði Gerrard eftir að kaupin voru staðfest.

Coutinho hefur gert fjögur mörk í 16 deildarleikjum fyrir Villa sem siglir lygnan sjó í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is