Liverpool bikarmeistari

Liverpool bikarmeistarar.
Liverpool bikarmeistarar.

Liverpool er bikarmeistari eftir 6:5 sigur í vítakeppni á Chelsea í úrslitaleik enska bikarsins í knattspyrnu á Wembley í dag.

Staðan var 0:0 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Þetta er í áttunda sinn sem Liverpool vinnur ensku bikarkeppnina en Liverpool vann síðast þessa keppni árið 2006 en þá vann liðið West Ham í vítaspyrnukeppni.

Liverpool byrjaði betur á Wembley í dag og var Luis Diaz sérstaklega sprækur. Á 8. mínútu leiksins fékk Diaz góða sendingu inn fyrir vörn Chelsea en Edouard Mendy varði mjög vel frá honum.

Þegar það fór að líða á fyrri hálfleikinn fóru leikmenn að bíta betur frá sér og á 23. mínútu fékk Christian Pulisic flotta sendingu frá Mason Mount en skot Pulisic setti boltann rétt framhjá. Stuttu síðar fékk Marcos Alonso gott færi en þá var það Pulisic sem sendi á hann en Alisson varði mjög vel frá Alonso.

Liverpool varð fyrir áfalli á 33. mínútu en þá þurfti Mo Salah að fara meiddur af velli en Diogo Jota kom inn í hans stað. Jota átti einmitt síðasta færið í fyrri hálfleik en Andy Robertson átti þá góða sendingu fyrir mark Chelsea á Jota en skot hans var rétt yfir.

Mo Salah fór meiddur af velli í fyrri hálfleik.
Mo Salah fór meiddur af velli í fyrri hálfleik. AFP/Glyn Kirk

 Leikmenn Chelsea byrjuðu seinni hálfleik með látum og fengu á nokkuð góð færi en bæði Marcos Alonso og Christian Pulisic voru nálægt þvi að koma Chelsea yfir í leiknum.

Þegar það fór að líða á seinni hálfleikinn tóku aftur á móti Liverpool öll völd á vellinum án þess að skapa sér alvöru færi. Ekki fyrr en á 83. mínútu en þá átti Sadio Mane góða sendingu á Luis Diaz en skot Diaz fór í utanverða stöngina.

Aðeins einni mínútu síðar átti James Milner frábæra sendingu á fjarstöngina og þar kom á ferðinni Andy Robertson en skot hans fór í stöngina og aftur slapp Chelsea með skrekkinn. Eftir 90 mínútur var staðan ennþá markalaus og því var leikurinn framlengdur.

Í framlengingunni voru liðin ekki að taka mikla áhættu og það sást greinilega að leikmenn beggja liða voru orðnir ansi þreyttir. Það var helst að liðin voru að reyna langskot en ekkert þeirra var sérlega hættulegt eða nálægt því að fara í netið.

Þegar þessi lið mættust í úrslitaleik enska deildabikarsins í lok febrúar þá enduðu leikar líka 0:0 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og þá var það Liverpool sem hafði betur í rosalegri vítaspyrnukeppni 11:10. 

Aftur var það Liverpool sem fagnaði sigri eftir vítaspyrnukeppni en að þessu sinni voru lokatölur 6:5. Hetja Liverpool var Kostas Tsmikas en hann skoraði úr sjöundu vítaspyrnu Liverpool eftir að Alisson hefði varið vítaspyrnu frá Mason Mount.

Þessi úrslit þýða að Liverpool á ennþá möguleika á því að vinna fernuna en nú þegar hefur liðið unnið enska deildabikarinn og enska bikarinn. Liðið mætir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í lok maí og svo er liðið þremur stigum á eftir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni þegar tvær umferðir eru eftir. Draumurinn lifir hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Kostas Tsimikas fagnar.
Kostas Tsimikas fagnar.
Liverpool 6:5 Chelsea opna loka
120. mín. Það er ein mínúta í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert