Tvö rauð og Everton enn í fallbaráttu

Leikmenn Everton og Brentford láta finna fyrir sér í dag.
Leikmenn Everton og Brentford láta finna fyrir sér í dag. AFP/Paul Ellis

Everton er ekki sloppið í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 2:3-tap á heimavelli gegn Brentford í dag.

Dominic Calvert-Lewin kom Everton yfir á 10. mínútu en átta mínútum síðar fékk Jarrad Branthwaite beint rautt spjald. Brentford nýtti sér liðsmuninn og jafnaði í 1:1 á 37. mínútu er Séamus Coleman skoraði sjálfsmark.

Tíu leikmenn Everton komust hinsvegar aftur yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Richarlison skoraði úr víti og var staðan í hálfleik 2:1.

Ellefu leikmenn Brentford voru hinsvegar sterkari í seinni hálfleik og Youane Wissa jafnaði í 2:2 á 62. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Rico Henry sigurmarkið.

Vont varð verra hjá Everton á 88. mínútu þegar Salomon Rondon fékk beint rautt spjald, fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Everton er í 16. sæti með 36 stig, einu stigi á undan Leeds og tveimur á undan Burnley. Leeds hefur leikið einum leik meira en Burnley og Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert