Arsenal að missa af Meistaradeildarsæti

Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal töpuðu dýrmætum stigum …
Mikel Arteta og lærisveinar hans í Arsenal töpuðu dýrmætum stigum í kvöld. AFP

Arsenal missteig sig enn á ný þegar liðið heimsótti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á St. James's Park í Newcastle í kvöld.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Newcastle þar sem Ben White, varnarmaður Arsenal, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 55. mínútu.

Það var svo Bruno Guimaraes sem innsiglaði sigur Newcastle með marki á 85. mínútu og þar við sat.

Arsenal er með 66 stig í fimmta sæti deildarinnar, tveimur stigum minna en erkifjendurnir í Tottenham sem eru í fjórða sætinu.

Arsenal tekur á móti Everton í lokaumferðinni og verður að vinna til þess að eiga möguleika á því að enda í fjórða sætinu en Tottenham heimsækir botnlið Norwich sem er fallið úr deildinni.

Tottenham er með mun betri markatölu en Arsenal og þarf Norður-Lundúnaliðið því að treysta á að Norwich vinni Tottenham, þar sem jafntefli dugar ekki til. 

Newcastle siglir svo lygnan sjó í tólfta sætinu með 46 stig og hefur að litlu að keppa í lokaumferðinni gegn Burnley sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

mbl.is