Chelsea blandar sér í baráttuna um Lewandowski

Robert Lewandowski hefur raðað inn mörkum í áraraðir.
Robert Lewandowski hefur raðað inn mörkum í áraraðir. AFP/Christof Stache

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur áhuga á að fá Robert Lewandowski, framherja Bayern München, í sínar raðir.

Lewandowski er samningsbundinn Bayern til ársins 2023 en Pólverjinn hefur gefið út að hann muni ekki framlengja núgildandi samning og mun því yfirgefa Þýskalandsmeistarana í sumar eða næsta sumar. 

Sá pólski hefur lengi viljað spilað á Spáni og The Guardian greinir frá að framherjinn hafi gert munnlegt samkomulag við Barcelona um þriggja ára samning.

Bayern hefur hinsvegar lítinn áhuga á að selja Lewandowski til Barcelona, þar sem félagið hefur verið í slæmum málum fjárhagslega síðustu mánuði og því óvíst hvort Lewandowski fái ósk sína uppfyllta.

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, er mikill aðdáandi Lewandowski, sem hefur skorað 343 mörk fyrir Bayern síðan hann kom til félagsins árið 2014.

Romelu Lukaku hefur ekki náð sér almennilega á strik síðan hann kom til enska félagsins fyrir þessa leiktíð og hefur félagið áhuga á að fá Lewandowski í stað Belgans.

mbl.is