Gaf ekki kost á sér í bikarúrslitum

Andreas Christensen gaf ekki kost á sér gegn Liverpool.
Andreas Christensen gaf ekki kost á sér gegn Liverpool. AFP/Glyn Krik

Danski knattspyrnumaðurinn Andreas Christensen gaf ekki kost á sér fyrir leik Chelsea og Liverpool í bikarúrslitum á Englandi á laugardaginn var.

Christensen gengur í raðir Barcelona eftir leiktíðina og The Guardian greinir frá að hann hafi ekki verið að glíma við meiðsli. Enski miðilinn greinir einnig frá að liðsfélagar hans hafi verið furðu lostnir þegar hann yfirgaf liðshótelið degi fyrir leik.

Daninn átti að byrja á bekknum gegn Liverpool, en honum hefði eflaust verið skipt inn á í fyrri hálfleik þegar Thiago Silva meiddist. Þess í stað hélt Silva áfram og haltraði verulega eftir leik.

Christensen hefur ekki leikið sérlega vel að undanförnu og var hann tekinn af velli hálfleik gegn bæði Real Madrid og Arsenal í síðasta mánuði.

Thomas Thuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur viðurkennt að fyrirhuguð félagaskipti Christensen til Barcelona hafi haft áhrif á frammistöðu leikmannsins.

mbl.is