Klopp um Mbappé: Ég er ekki blindur

Kylian Mbappé verður samningslaus í sumar.
Kylian Mbappé verður samningslaus í sumar. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur mikinn áhuga á franska sóknarmanninum Kylian Mbappé.

Mbappé, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn París SG í Frakklandi en samningur hans við franska stórliðið rennur út í sumar.

Frakkinn hefur verið orðaður við öll stærstu félög Evrópu að undanförnu, þar á meðal Liverpool, en líklegast þykir að hann semji við Spánarmeistara Real Madrid í sumar.

„Auðvitað hef ég áhuga á leikmanni eins og Kylian Mbappé, ég er ekki blindur,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í vikunni.

„Staðreyndin er hins vegar sú að það er erfitt fyrir okkur að blanda okkur í baráttuna um hann því við erum að tala um mikla fjármuni.

Það hafa einhver samtöl átt sér stað en hann er ekki á leiðinni í Liverpool. Hann er hins vegar leikmaður sem allir hafa áhuga á, og ef ekki, þá er eitthvað að,“ bætti Klopp við.

mbl.is