Liverpool eygir enn von eftir nauman sigur

Leikmenn Liverpool fagna marki Joel Matip.
Leikmenn Liverpool fagna marki Joel Matip. AFP/Glyn Kirk

Liverpool vann Southampton með minnsta mun, 2:1, þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í Southampton í kvöld. Heimamenn komust yfir en Liverpool tókst að snúa taflinu við.

Á tíundu mínútu komst Armando Broja í álitlega stöðu í vítateig Liverpool en Alisson gerði vel í að verja skot hans eða fyrirgjöf með fótunum.

Heimamenn í Southampton tóku svo forystuna skömmu síðar, á 13. mínútu. Þá braut Lyanco á Diogo Jota, ekkert var dæmt og boltinn barst til Nathan Tella sem kom honum áfram á Nathan Redmond. Hann fór laglega framhjá Joe Gomez og svo gott sem framhjá James Milner, þrumaði svo að marki og fór boltinn af Milner og þaðan upp í samskeytin fjær.

Þrátt fyrir brot Lyanco á Jota þegar Southampton vann boltann í aðdraganda skyndisóknarinnar aðhafðist VAR ekkert frekar og laglegt mark Redmonds stóð því.

14 mínútum síðar, á 27. mínútu, jafnaði Liverpool metin. Gomez kom boltanum þá á Jota sem renndi honum til hliðar á Takumi Minamino sem hamraði boltann glæsilega upp í nærhornið.

Eftir jöfnunarmarkið setti Liverpool heimamenn undir mikla pressu og fengu gestirnir nokkur prýðis færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Þau voru þó ekki nægilega opin og hafði Liverpool því ekki erindi sem erfiði.

Staðan var því 1:1 í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleiks fékk Jota dauðafæri eftir góðan sprett og sendingu Kostas Tsimikas en skot hans úr vítateignum sleikti fjærstöngina.

Á 56. mínútu slap ungstirnið Harvey Elliott í gegn hægra megin í vítateignum eftir sendingu Roberto Firmino en skot Elliotts hafnaði í hliðarnetinu.

Áfram var Liverpool með öll völd í leiknum en vörn Southampton var þétt þar sem leikmenn liðsins komust fyrir skot Liverpool-manna í gríð og erg.

Á 67. mínútu náðu gestirnir hins vegar að snúa taflinu við. Tsimikas tók þá hornspyrnu frá vinstri, hún var skölluð áfram af Mohamed Elyounoussi, Kyle Walker-Peters skallaði svo boltann í baráttu við Joel Matip og virtist hann fara af höfði Kamerúnans og þaðan fór boltinn upp í markhornið.

Eftir markið færði Liverpool sig aftar á völlinn og skapaði sér ekki jafn mörg færi en að sama skapi fékk Southampton engin opin færi.

Á 88. mínútu átti Redmond fína tilraun fyrir utan teig en Alisson varði fast skot hans og greip svo boltann í annarri tilraun.

Liverpool sigldi að lokum naumum sigri í höfn og minnkar þar með forskot Manchester City á toppi deildarinnar niður í eitt stig þegar einni umferð er ólokið.

Takumi Minamino jafnaði metin fyrir Liverpool.
Takumi Minamino jafnaði metin fyrir Liverpool. AFP/Glyn Kirk
Nathan Redmond fagnar marki sínu í kvöld.
Nathan Redmond fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Glyn Kirk
Southampton 1:2 Liverpool opna loka
90. mín. Að minnsta kosti þremur mínútum verður bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert