„Eitt besta augnablik lífs míns í fótbolta“

Stuðningsmenn Everton voru ánægðir með Frank Lampard og lærisveina hans …
Stuðningsmenn Everton voru ánægðir með Frank Lampard og lærisveina hans í kvöld. AFP/Oli Scarff

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, segir 3:2-sigur liðsins á Crystal Palace í kvöld, sem tryggði liðinu sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni að ári, vera eitt besta augnablik ferils síns í fótbolta.

Lampard var afskaplega sigursæll sem leikmaður Chelsea, vann til að mynda ensku úrvalsdeildina þrisvar og Meistaradeild Evrópu einu sinni, en sagði tilfinningarnar sem fylgja því að vera í botnbaráttu vera öðruvísi og ekki síður sérstakar.

„Þetta er eitt besta augnablik lífs míns í fótbolta á ferlinum. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að upplifa fjölda stórkostlegra tíma, sérstaklega hjá Chelsea sem leikmaður og þjálfari.

En þegar þú upplifir tilfinningarnar sem fylgja botnbaráttu, til dæmis örvæntingu, er það öðruvísi. Þú verður að grafa djúpt innra með þér, þú tapar leikjum, þú berst fyrir einhverju og svo taparðu öðrum leik,“ sagði Lampard í samtali við BBC Sport eftir leik.

Sigurinn í kvöld var erfið fæðing þar sem Palace leiddi með tveimur mörkum í leikhléi. Þrjú mörk í síðari hálfleik sáu hins vegar til þess að Everton tryggði sér stigin þrjú og allt varð vitlaust af gleði á Goodison Park enda úrvalsdeildarsætið tryggt.

„Ég hélt ég myndi fara að gráta [í leikslok], ég hélt að ég myndi stökkva út úr líkamanum. Það ætti enginn að gera lítið úr fögnuðinum í lokin. Það er auðvelt að segja: „En þið hafið ekki unnið neitt“ en sjáið bara hvaða merkingu þetta hefur fyrir fólkið að liðið haldi sæti sínu í þessari deild,“ bætti hann við.

Stuðningsmenn Everton fögnuðu á vellinum í leikslok.
Stuðningsmenn Everton fögnuðu á vellinum í leikslok. AFP/Oli Scarff
mbl.is