Everton tryggði sætið með magnaðri endurkomu

Stuðningsmenn Everton voru vægast sagt sáttir með að sætið í …
Stuðningsmenn Everton voru vægast sagt sáttir með að sætið í ensku úrvalsdeildinni var tryggt í kvöld. AFP/Oli Scarff

Everton hafði betur gegn Crystal Palace, 3:2, þegar liðin mættust á Goodison Park í Liverpool-borg í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Palace leiddi með tveimur mörkum í leikhléi en Everton sneri taflinu við í síðari hálfleik og tryggði þannig sæti sitt í deildinni.

Jean-Philippe Mateta kom Palace yfir á 21. mínútu og Jordan Ayew tvöfaldaði forystuna stundarfjórðungi síðar.

Snemma í síðari hálfleik, á 54. mínútu náði Michael Keane inn mikilvægu marki fyrir Everton og munurinn aðeins eitt mark.

Richarlison jafnaði metin þegar stundarfjórðungur lifði leiks áður en Dominic Calvert-Lewin skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok.

Sigurinn þýðir að Everton er nú með 39 stig, fjórum stigum meira en Leeds United í 18. og síðasta fallsætinu. Bæði lið eiga aðeins einn leik eftir á tímabilinu og getur Leeds því ekki lengur náð Everton.

Palace heldur kyrru fyrir í 13. sæti með 45 stig.

mbl.is