Lykilmaður Leeds klár fyrir lokaumferðina

Patrick Bamford hefur verið sárt saknað í framlínu Leeds á …
Patrick Bamford hefur verið sárt saknað í framlínu Leeds á tímabilinu. AFP

Patrick Bamford, sóknarmaður Leeds United, hefur verið meira og minna meiddur á tímabilinu en Jesse Marsch, knattspyrnustjóri liðsins, segir hann koma til með að geta tekið þátt í leiknum mikilvæga gegn Brentford í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag.

Fyrir lokaumferðina er Leeds í erfiðri stöðu í 18. og síðasta fallsætinu með 35 stig, jafnmörg og Burnley í sætinu fyrir ofan en með umtalsvert lakari markatölu.

„Bamford hefur litið mjög vel út í þessari viku. Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi sunnudaginn en hann hefur litið vel út alla vikuna.

Honum líður betur en áður og við undirbúum hann vel undir þennan leik svo hann geti spilað eins mikið og mögulegt er,“ sagði Marsch á blaðamannafundi í dag.

Hann greindi þá einnig frá því að Robin Koch sé sömuleiðis klár í slaginn eftir að hann missti af síðasta leik Leeds, 1:1-jafntefli gegn Brighton, eftir að hafa glímt við smávægileg meiðsli.

mbl.is