„Þvoðu munninn á þér“

Richarlison svaf ekki rótt fyrr en hann var búinn að …
Richarlison svaf ekki rótt fyrr en hann var búinn að láta Jamie Carragher heyra það. AFP/Oli Scarff

Brasilíski sóknarmaðurinn Richarlison, leikmaður Everton, svaraði Jamie Carragher, sparkspekingi hjá Sky Sports, fullum hálsi eftir að Carragher gagnrýndi Richarlison fyrir að fara of oft og auðveldlega niður.

Carragher var meðlýsandi fyrir Sky Sports á leik Everton og Crystal Palace þegar Everton tryggði sér úrvalsdeildarsæti sitt með 3:2-endurkomusigri í gærkvöldi.

Á einum tímapunkti í leiknum féll Richarlison við og Carragher sagði:

„Í alvöru talað, upp með þig, í hverri viku sé ég hann spila svona. Upp með þig, haltu áfram. Hann er búinn að leggjast þrisvar í grasið nú þegar, það er ekkert að honum.“

Eftir að hafa séð atvikið aftur dró Carragher þó aðeins í land: „Eftir að hafa séð þetta aftur var ég kannski aðeins of harður við hann. Kannski er aðeins farið í ökklann á honum.

En hann fer svo mikið í grasið. Hann hefur farið niður tvisvar nú þegar í þessum leik þar sem maður er ekki viss um að hann hafi þurft þess.“

Richarlison var greinilega ekki skemmt yfir ummælum Carragher enda skrifaði hann á twitteraðgangi sínum klukkan 1.37 í nótt:

„Þvoðu munninn á þér áður en þú talar um mig og Everton og ég virði þig ekki.“

Carragher svaraði þá á twitteraðgangi sínum: „Mér líkar þetta svolítið satt að segja, ef Twitter hefði verið til þegar ég var leikmaður er ég nokkuð viss um að ég hefði látið sparkspekinga heyra það frekar oft!“

mbl.is