Við erum ekki vélmenni

Antonio Rüdiger leikur væntanlega sinn síðasta leik með Chelsea á …
Antonio Rüdiger leikur væntanlega sinn síðasta leik með Chelsea á sunnudaginn. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Antonio Rüdiger segir að sér þyki leitt hvernig sín mál hjá Chelsea hafi þróast en hann yfirgefur enska félagið í sumar og gengur væntanlega til liðs við Real Madrid án greiðslu.

Rüdiger sagði í viðtali við vefmiðilinn The Player's Tribune að þetta hefði ekki endilega verið sín óskastaða.

„Því miður fóru viðræður um nýjan samning í slæman farveg strax síðasta haust. Þetta eru vissulega viðskipti, en það flækir stöðuna þegar maður heyrir ekkert nýtt frá félaginu frá ágúst og fram í janúar," sagði Rüdiger í viðtalinu.

„Eftir að fyrsta tilboðið var lagt fram leið langur tími þar sem ekkert gerðist. Þú veist að við erum ekki vélmenni. Þú getur ekki beðið mánuðum saman í óvissu um þína framtíð. Auðvitað sá enginn fyrir þær refsingar sem félagið varð fyrir (vegna eigandans Romans Abramovichs og innrásar Rússa í Úkraínu) en staðan var orðin þannig að að önnur stór félög sýndu mér áhuga og ég varð að taka ákvörðun. Ég vil ekki segja meira en þetta um málið því hef hef ekkert slæmt að segja um Chelsea," sagði þýski varnarmaðurinn.

mbl.is