City meistari eftir ótrúlega endurkomu

Stuðningsfólk Manchester City flykktist inn á leikvanginn í lokin og …
Stuðningsfólk Manchester City flykktist inn á leikvanginn í lokin og annað markið varð undan að láta. AFP/Oli Scarff

Manchester City er Englandsmeistari í fótbolta árið 2022 eftir ótrúlegan 3:2-endurkomusigur gegn Aston Villa á heimavelli í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.

Aston Villa komst í 2:0 en City skoraði þrjú mörk á fimm mínútna kafla skömmu fyrir leikslok og tryggði sér magnaðan sigur. 

City var miklu meira með boltann allan fyrri hálfleik en illa gekk að reyna mikið á Robin Olsen í markinu. Phil Foden komst næst því að skora fyrir heimamenn á 24. mínútu þegar hann skaut í varnarmann innan teigs og þaðan fór boltinn hárfínt framhjá.

Manchester City er Englandsmeistari árið 2022.
Manchester City er Englandsmeistari árið 2022. AFP/Oli Scarff

Villa komst sjaldan nálægt marki City en þrátt fyrir það voru það gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksin á 37. mínútu þegar Matty Cash skallaði í netið af stuttu færi eftir glæsilega fyrirgjöf frá Lucas Digne.

Aymeric Laporte fékk ágætt færi til að jafna í uppbótartíma fyrri hálfleiks en hann skallaði beint á Olsen af stuttu færi eftir horn. Staðan í hálfleik var því 1:0, Aston Villa í vil. Sú úrslit nægðu Villa á þeim tímapunkti þar sem staðan í leik Liverpool og Wolves var 1:1.

City var áfram meira með boltann í seinni hálfleik, fékk fullt af hornspyrnum og sótti mikið. Rétt eins og í fyrri hálfleik gekk hinsvegar illa að reyna mikið á Olsen í markinu. Olsen var svo nálægt því að leggja upp mark á Ollie Watkins sem slapp einn í gegn eftir langa spyrnu fram frá Olsen en Watkins setti boltann framhjá á 55. mínútu.

Rétt rúmum 20 mínútum fyrir leikslok komst Villa í 2:0. Olsen átti þá langan bolta fram, Watkins vann skallaeinvígi og Coutinho lét á Laporte og skoraði með glæsilegu skoti á nærstöngina.

Ilkay Gündogan minnkaði muninn á 76. mínútu er hann skallaði í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Raheem Sterling en þeir komu báðir inn á sem varamenn. Annar varamaður, Oleksandr Zinchenko, lagði upp jöfnunarmarkið á Rodri aðeins tveimur mínútum síðar. Rodri kláraði þá með glæsilegu skoti utan teigs.

City var heldur betur ekki hætt því Gündogan skoraði sitt annað mark aðeins fjórum mínútum síðar þegar hann skoraði af stuttu færi eftir glæsilega fyrirgjöf frá Kevin De Bruyne.

City gerði vel í að drepa leikinn eftir það og komst Aston Villa ekki nálægt því að jafna.

Man. City 3:2 Aston Villa opna loka
90. mín. City er mikið að halda boltanum síðustu mínútur, án þess að reyna að sækja. Heimamenn eru að drepa tímann og hægt og rólega að nálgast Englandsmeistaratitilinn.
mbl.is