Eitt mark skilur Salah og Son að

Mohamed Salah fór meiddur af velli um síðustu helgi.
Mohamed Salah fór meiddur af velli um síðustu helgi. AFP/Glyn Kirk

Mohamed Salah og Son Heung-Min, sóknarmenn Liverpool og Tottenham Hotspur, munu eflaust heyja harða baráttu um markakóngstitil ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla enda skilur aðeins eitt mark þá að fyrir lokaumferð deildarinnar sem fram fer í dag.

Salah er sem stendur markahæstur með 22 mörk í 34 leikjum á meðan Son er með 21 mark í jafnmörgum leikjum.

Endi þeir með jafnmörg mörk munu þeir deila sitt hvorum gullskónum.

Son Heung-Min hefur raðað inn mörkum á árinu.
Son Heung-Min hefur raðað inn mörkum á árinu. AFP/Glyn Kirk

Salah hefur gefið aðeins eftir á síðari hluta tímabilsins þar sem sjö af mörkunum hans hafa komið á þessu ári. Þá er möguleiki á því að Egyptinn missi af síðasta leiknum þar sem hann fór meiddur af velli í úrslitum ensku bikarkeppninnar um síðustu helgi.

Á hinn bóginn hefur Son skorað 13 af mörkum sínum á þessu ári.

Lið þeirra beggja hafa að öllu að keppa enn þar sem Liverpool er einu stigi á eftir Manchester City í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn og Tottenham er tveimur stigum fyrir ofan Arsenal í fjórða sæti, síðasta Meistaradeildarsætinu.

Liverpool á heimaleik gegn Wolverhampton Wanderers og Tottenham heimsækir þegar fallið lið Norwich City.

Næstir á eftir Salah og Son koma Cristiano Ronaldo með 18 mörk og Harry Kane með 16 mörk og því fyrirfram hæpið að þeim takist að blanda sér í baráttuna um markakóngstitilinn af einhverri alvöru í lokaumferðinni.

mbl.is