Liverpool vann en það dugði ekki til

Mohamed Salah kemur Liverpool yfir.
Mohamed Salah kemur Liverpool yfir. AFP/Paul Ellis

Liverpool þurfti að gera sér annað sætið að góðu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla þrátt fyrir að hafa unnið leik sinn í lokaumferðinni gegn Wolverhampton Wanderers, 3:1, eftir erfiða fæðingu.

Það blés ekki byrlega fyrir Liverpool í upphafi leiks því Úlfarnir tóku forystuna eftir aðeins þrjár mínútur.

José Sá tók markspyrnu frá marki Úlfanna, sendi boltann langt fram þar sem Ibrahima Konaté misreiknaði boltann hrapallega, missti hann yfir sig og Raúl Jiménez því sloppinn einn í gegn, hann lék með boltann inn í vítateig, renndi honum þvert fyrir markið og þar var Pedro Neto mættur á fjærstöngina og renndi boltanum af öryggi í netið.

Leikmenn Liverpool virtust nokkuð slegnir yfir þessari byrjun en hófu að vinna sig inn í leikinn og skapa sér nokkur prýðis færi.

Það besta fékk Naby Keita á 13. mínútu þegar boltinn datt fyrir hann í vítateignum en Toti náði að renna sér fyrir skot Keita á ögurstundu.

Fimm mínútum síðar komust Úlfarnir nálægt því að tvöfalda forskot sitt með sínu öðru skoti í leiknum. Neto slapp þá í gegn vinstra megin, renndi boltanum á nærstöngina á Leander Dendoncker en skot hans af stuttu færi fór framhjá nærstönginni.

Á 24. mínútu jafnaði Liverpool metin. Thiago átti þá hreint magnaða stungusendingu með hælnum á Sadio Mané, hann var sloppinn einn í gegn og renndi boltanum með vinstri fóti niður I nærhornið.

Í kjölfar marksins freistaði Liverpool þess að ná forystunni og fengu til þess fáein skotfæri.

Þriðja skotfæri Úlfanna reyndist hins vegar besta færið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks þegar Hee-Chan Hwang, sem kom inn á sem varamaður fyrir Neto um miðjan hálfleikinn, slapp aleinn í gegn en Alisson varði skot hans laglega aftur fyrir endamörk.

Staðan var því 1:1 í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. Liverpool nánast einokaði boltann, skapaði sér nokkur góð færi á meðan Úlfarnir fengu nokkur frábær tækifæri eftir skyndisóknir.

Næsta mark leiksins lét hins vegar bíða lengi eftir sér en kom loks á 84. mínútu. Trent Alexander-Arnold tók þá hornspyrnu frá hægri, Joel Matip náði þrumuskalla sem Raúl varði naumlega á línu en varamaðurinn Mohamed Salah náði frákastinu og renndi boltanum á milli fóta varnarmanns Úlfanna og í netið.

Fimm mínútum síðar innsiglaði Andrew Robertson sigur Liverpool með þriðja markinu. Laglegt spil endaði þá með því að varamaðurinn Roberto Firmino lagði boltann út á Robertson sem rennitæklaði boltann af afli í netið.

Þar við sat og tveggja marka sigur Liverpool niðurstaðan.

Sigur Liverpool dugði þó ekki til því Manchester City vann einnig sinn leik, 3:2-endurkomusigur gegn Aston Villa, og vann þar með Englandsmeistaratitilinn annað árið í röð og í fjórða sinn á síðustu fimm árum.

Sadio Mané jafnaði metin fyrir Liverpool.
Sadio Mané jafnaði metin fyrir Liverpool. AFP/Paul Ellis
Trent Alexander-Arnold í leiknum í dag.
Trent Alexander-Arnold í leiknum í dag. AFP/Paul Ellis
Raúl Jiménez og Pedro Neto fagna marki þess síðarnefnda.
Raúl Jiménez og Pedro Neto fagna marki þess síðarnefnda. AFP/Paul Ellis
Liverpool 3:1 Wolves opna loka
90. mín. Leander Dendoncker (Wolves) fer af velli
mbl.is