Lykilmaður Leeds með veiruna

Patrick Bamford á ekki sjö dagana sæla.
Patrick Bamford á ekki sjö dagana sæla. AFP

Ólánið eltir Patrick Bamford, sóknarmann Leeds United, á röndum. Bamford er nýbúinn að jafna sig á langvarandi meiðslum og átti því möguleika á að taka þátt í lokaumferðinni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla dag en af því verður ekki þar sem hann er smitaður af kórónuveirunni.

Þetta staðfesti Jesse Marsch, knattspyrnustjóri Leeds, í samtali við BBC Sport skömmu fyrir leikinn mikilvæga gegn Brentford sem hefst klukkan 15 í dag.

Bamford hefur þrívegis meiðst illa á tímabilinu og því aðeins tekið þátt í níu deildarleikjum á því, samanborið við að hafa leikið alla 38 leiki Leeds á síðasta tímabili, þar sem hann skoraði 17 mörk.

Markanefs og hæfileika Bamfords hefur því verið sárt saknað á erfiðu tímabili Leedsara.

Fyrir lokaumferðina er Leeds í 18. og síðasta fallsætinu. Burnley er sæti ofar með jafnmörg stig, 35, en mun betri markatölu. Því þarf Leeds á úrslitum að halda gegn Brentford í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert