Tottenham í Meistaradeildina – Arsenal og United í Evrópudeildina

Leikmenn Tottenham fagna einu af fimm mörkum sínum í dag.
Leikmenn Tottenham fagna einu af fimm mörkum sínum í dag. AFP/Ben Stansall

Tottenham Hotspur tryggði sér fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla og þar með Meistaradeildarsæti með stæl þegar liðið hafði betur gegn botnliði Norwich City, 5:0, í lokaumferðinni í dag.

Son Heung-Min og Dejan Kulusevski skoruðu báðir tvennu og Harry Kane skoraði eitt mark.

Arsenal átti fyrir lokaumferðina möguleika á fjórða sætinu en þurfti að reiða sig á að Tottenham myndi misstíga sig.

Það gerðist ekki en Arsenal lauk þó tímabilinu með stæl og vann stórsigur líkt og nágrannar sínir, 5:1 gegn Everton.

Gabriel Martinelli, Eddie Nketiah, Cédric Soares, Gabriel og Martin Ödegaard komust allir á blað hjá Skyttunum og Donny van de Beek skoraði mark Everton.

Arsenal endaði í fimmta sæti og fer í Evrópudeildina á næsta tímabili.

Manchester United lauk keppni með tapi, 0:1, á útivelli gegn Crystal Palace en hafnaði samt sem áður í sjötta sæti og fer því líkt og Arsenal í Evrópudeildina.

Wilfried Zaha skoraði sigurmark Crystal Palace gegn sínum gömlu félögum í dag.

West Ham United hefði með sigri gegn Brighton & Hove Albion átt möguleika á að hrifsa sjötta sætið af Man. United en tókst það ekki þar sem liðið tapaði, 1:3.

West Ham hafnaði því í sjöunda sæti og tekur því þátt í Sambandsdeild UEFA á næsta tímabili.

Brighton tryggði sér með sigrinum níunda sæti deildarinnar, sem er besti árangur í efstu deild í sögu félagsins.

Michail Antonio hafði komið Hömrunum yfir í fyrri hálfleik en Joel Veltman, Pascal Gross og Danny Welbeck svöruðu með þremur mörkum fyrir Brighton í þeim síðari.

mbl.is