Liverpool staðfestir komu Carvalho

Fábio Carvalho.
Fábio Carvalho. Ljósmynd/Fulham FC

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur tilkynnt formlega um að sóknartengiliðurinn ungi, Fábio Carvalho, muni ganga til liðs við félagið frá Fulham þann 1. júlí næstkomandi.

Í síðasta mánuði tilkynnti félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano að allt væri klappað og klárt, Carvalho myndi semja við Liverpool til fimm ára, sem greiðir Fulham fimm milljónir punda í stað þess að láta hlutlausan aðila ákvarða uppeldisbætur, en Carvalho var að renna út á samningi hjá Fulham.

Carvalho, sem er 19 ára gamall, er fæddur í Portúgal en flutti ungur að árum til Englands og lék fyrir flest yngri landsliðs Englands áður en hann hóf að leika með portúgalska U21-árs landsliðinu í byrjun þessa árs.

Skoraði hann tíu mörk og lagði upp önnur átta í 36 deildarleikjum fyrir Fulham á tímabilinu þegar liðið vann B-deildina og tryggði sér þar með sæti í ensku úrvalsdeildinni að nýju.

mbl.is