Lögreglan aðhefst ekkert í máli Vieira

Patrick Vieira (t.h.) ásamt Frank Lampard á hliðarlínunni síðastliðið fimmtudagskvöld.
Patrick Vieira (t.h.) ásamt Frank Lampard á hliðarlínunni síðastliðið fimmtudagskvöld. AFP/Oli Scarff

Lögregluyfirvöld á Englandi hafa ákveðið að fara ekki lengra með mál Patrick Vieira, knattspyrnustjóra Crystal Palace, sem sparkaði í stuðningsmann Everton sem hafði hlaupið inn á Goodison Park-völlinn eftir sigur Everton á Palace í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Everton sneri 0:2-stöðu í 3:2-sigur á fimmtudagskvöld og tryggði þar með sæti sitt í deildinni.

Stuðningsmenn Everton ærðust af fögnuði eftir leikinn og fjölmenntu inn á völlinn.

Einn þeirra ákvað að gera gys að Vieira, ögra honum og hreyta ókvæðisorðum í hann þegar franski stjórinn var að reyna að ganga af velli. Vieira sparkaði stuðningsmanninn þá niður.

Ekki sakaði stuðningsmanninn og mun lögreglan ekki aðhafast neitt frekar í málinu þar sem hvorki Vieira né stuðningsmaðurinn vilja fara lengra með það.

mbl.is