Ráðist á Olsen – City biðst afsökunar

Robin Olsen fleygir blysi af vellinum í gær.
Robin Olsen fleygir blysi af vellinum í gær. AFP/Oli Scarff

Stuðningsmaður Manchester City gekk of hratt um gleðinnar dyr þegar hann hljóp inn á Etihad-völlinn eftir 3:2-sigur liðsins á Aston Villa, sem tryggði liðinu Englandsmeistaratitilinn í gær.

Mikill fjöldi stuðningsmanna ærðist af gleði og fjölmennti inn á völlinn. Einn þeirra lamdi Robin Olsen, sænskan markvörð Aston Villa, í höfuðið er hann var að búa sig undir að ganga af velli eftir að leikurinn var flautaður af.

„Það var ráðist á markvörðinn minn og ég tel að það ætti að spyrja Pep [Guardiola knattspyrnustjóra] og Manchester City út í það,“ sagði Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Villa, eftir leik.

Man. City gaf út yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem beðist er afsökunar á árásinni á Olsen og því lofað að einstaklingurinn sem sló hann í höfuðið verði settur í bann þegar búið er að bera kennsl á hann.

„Manchester City vill biðja Robin Olsen, markvörð Aston Villa, sem var ráðist á undir lok leiks í dag þegar stuðningsmenn fóru inn á völlinn, innilegrar afsökunar. Félagið hefur þegar sett á fót rannsókn og um leið og borin verða kennsl á einstaklinginn sem er ábyrgur verður hann settur í ótímabundið bann frá leikvanginum,“ sagði í yfirlýsingu City í gær.

Búið er að handtaka tvo karlmenn eftir fögnuðinn á Etihad-vellinum í gær en hvorug handtakan tengist þó árásinni á Olsen, enn er leitað mannsins sem ber ábyrgð á henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert