Sigurskeið City og Liverpool mun taka enda

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP/Justin Tallis

Erik ten Hag, nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United, sat fyrir svörum á sínum fyrsta blaðamannafundi sem stjóri liðsins í morgun. Hann hlakkar til þess að berjast við Manchester City og Liverpool, sem hafa verið í sérflokki á Englandi undanfarin ár og er hvergi banginn.

„Ég dáist að þeim báðum, Manchester City og Liverpool. Þau spila bæði stórkostlegan fótbolta. En maður sér það alltaf að öll skeið taka enda og ég hlakka til þess að berjast við þau,“ sagði ten Hag.

Hann var þá spurður hvort ægivald liðanna tveggja væri hægt að stöðva áður en Pep Guardiola og Jürgen Klopp, knattspyrnustjórar þeirra, létu af störfum. „Ég held það já,“ svaraði ten Hag.

Man. United hefur gengið illa á undanförnum árum og náði aðeins í 58 stig á nýafstöðnu tímabili, sem er versti árangur liðsins í 30 ára sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Ten Hag er þó ekki á því að hann sé að hætta orðspori sínu með því að takast á við snúið verkefni sem bíður hans sem stjóra Man. United.

„Ég lít ekki á þetta sem áhættu. Þetta félag býr yfir tilkomumikilli sögu og við skulum núna skapa okkur framtíð. Þetta verður spennandi,“ sagði hann.

Ten Hag kvaðst þó átta sig á því að hann þurfi að láta til sín taka þegar í stað. „Það sem við erum að hugsa er þetta: „Þetta er verkefni og það tekur tíma.“ En ég veit það einnig að hjá þessu félagi og öðrum félögum á við Ajax og Bayern München [þar sem ten Hag hefur þjálfað] er aldrei neinn tími á toppnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert