Báðust afsökunar á skilti þar sem United var sagt vera „drasl“

Manchester United gekk ekki sem skildi á tímabilinu.
Manchester United gekk ekki sem skildi á tímabilinu. AFP

Fréttakona á BBC News-sjónvarpsstöðinni fann sig knúna til þess að biðjast afsökunar í beinni útsendingu í morgun vegna skiltis sem birtist á skjánum en átti ekki að gera. Á því stóð einfaldlega „Manchester United er drasl.“

Karlaliði Manchester United í knattspyrnu karla gekk ekki sem skildi á tímabilinu þegar það fékk sinn lægsta stigafjölda í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og vann engan titil, og gerði það raunar síðast fyrir sléttum fimm árum.

Fyrir neðan fréttakonuna birtist skiltið með athugasemdinni um liðið og útskýrði hún hvað hafi valdið því að það hafi birst.

„Sum ykkar hafa eflaust tekið eftir nokkru fremur óvenjulegu á botni skjásins á skilti sem fylgir fréttunum þar sem var að finna athugasemd um Manchester United og ég vona að stuðningsmenn Manchester United hafi ekki móðgast vegna þess.

Svo ég útskýri hvað gerðist bak við tjöldin þá var aðili sem var að læra á það hvernig eigi að setja inn skilti og setja texta á þau. Aðilinn var því að skrifa handahófskennda hluti, ekki í alvöru, og athugasemdin birtist.

Ef þið sáuð þetta og móðguðust biðjumst við afsökunar og sér í lagi stuðningsmenn Manchester United. Þetta voru sannarlega mistök og þetta átti ekki að birtast á skjánum,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert