Hamrarnir reyna aftur við Lingard

Jesse Lingard gekk frábærlega í treyju West Ham.
Jesse Lingard gekk frábærlega í treyju West Ham. AFP

Enska knattspyrnufélagið West Ham United hefur sett sig í samband við sóknartengiliðinn Jesse Lingard með það fyrir augum að semja við hann, en samningur hans við uppeldisfélagið Manchester United rennur út í sumar.

Hamrarnir hafa í síðustu tveimur félagaskiptagluggum reynt að festa kaup á Lingard í kjölfar frábærs gengis hans sem lánsmaður hjá liðinu síðari hluta tímabilsins 2020/2021, þar sem hann skoraði níu mörk í 16 deildarleikjum.

Ole Gunnar Solskjær, sem var knattspyrnustjóri Manchester United í upphafi nýafstaðins tímabils, vildi ekki selja Lingard sumarið 2021 og bráðabirgðastjórinn Ralf Rangnick vildi sömuleiðis ekki selja hann í janúarglugganum á þessu ári.

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, vonast til þess að þau tengsl sem Lingard hafi myndað við félagið eftir lánsdvölina á síðasta ári muni hjálpa til við að fá leikmanninn til þess að líta á Hamrana sem hans fyrsta kost í leit sinni að nýju félagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert