Zouma gengst við dýraníði

Kurt Zouma játaði sök.
Kurt Zouma játaði sök. AFP

Kurt Zouma, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins West Ham United, játaði sök í tveimur ákæruliðum vegna dýraníðs fyrir rétti í Lundúnum í dag.

Zouma var ákærður í þremur liðum fyrir brot gegn velferð dýra eftir að myndband af honum fór í dreifingu á veraldarvefnum þar sem hann sést sparka í og slá kött sinn auk þess að kasta skóm í átt að gæludýrinu.

Gekkst hann við því í tveimur ákæruliðum að hafa valdið vernduðu dýri óþarfa skaða.

Í myndbandinu, sem bróðir hans Yoan tók upp og dreifði upphaflega á snapchat-miðlinum, heyrist Kurt einnig hrópa: „Ég sver að ég drep hann [köttinn].“

Yoan játaði sök í einum ákæruliði sem sneri að því að aðstoða, veita ráðgjöf eða fá eldri bróður sinn til þess að fremja afbrot.

Dómur í málinu verður kveðinn upp í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert