Miðjumaðurinn Thiago gæti eftir allt saman spilað með Liverpool gegn Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardagskvöldið.
Útlit var fyrir að hann yrði ekki með vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Liverpool gegn Wolves í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool sagði á fréttamannafundi rétt í þessu að nú væru gleðilegar fréttir af spænska miðjumanninum.
„Ég hitti hann rétt áðan og líkurnar eru góðar, þær eru merkilega góðar. Það sem kom í ljós í morgun var að meiðslin eru ekki eins slæm og óttast var. Hann gæti æft með okkur á morgun," sagði Klopp.