Mané á förum?

Gæti úrslitaleikurinn verði síðasti leikur Mané fyrir Liverpool?
Gæti úrslitaleikurinn verði síðasti leikur Mané fyrir Liverpool? AFP/Paul Ellis

Senegalinn Sadio Mané, leikmaður Liverpool, gæti verið á förum frá félaginu. Hann sagði í viðtali við Skysports að hann myndi tilkynna hvort hann verði áfram hjá Liverpool eða ekki eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid á laugardaginn.

Bayern München er talinn líklegasti áfangastaður Mané, skyldi hann fara. Bayern er talið mjög áhugasamt að fá kappann og hefur félagið talað um að borga 30 milljónir evra fyrir hann. Liverpool metur hinsvegar Senegalann á 50 milljónir evra og félagið er tilbúið að hefja viðræður ef Bayern er tilbúið að borga það. Frá þessu segir þýski miðilinn Bild.

Sadio Mané er þrítugur og á eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool. 

Mikið hefur verið rætt um framtíð Liverpool þríeykisins, Sadio Mané, Mohamed Salah og Roberto Firmino og hafa margir fjölmiðlar spáð því að einn þeirra fari. Oftar en ekki hefur Mohamed Salah verið sá umtalaði en hann staðfesti það sjálfur að hann yrði áfram hjá Liverpool í gær. 

mbl.is