Lykilmaður Liverpool sagði já við United

Sadio Mané sagði já en síðan nei við Manchester United.
Sadio Mané sagði já en síðan nei við Manchester United. AFP/Paul Ellis

Knattspyrnumaðurinn Sadio Mané verður í eldlínunni þegar Liverpool og Real Madrid mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Stade de France í París klukkan 19 í kvöld.

Mané vakti athygli í viðtali við The Telegraph fyrir leikinn því hann viðurkenndi að hafa samþykkt tilboð Manchester United á sínum tíma en hætt við til að ganga í raðir Liverpool í staðinn.

„Það var allt klárt og ég var búinn að samþykkja og segja já við United. Ég hætti síðan við og ákvað að fara í Liverpool. Ég hafði trú á Klopp. Ég man þegar hann hringdi í mig fyrst, ég var að horfa á hasarmynd heima því ég elska bíómyndir,“ sagði Mané við enska miðilinn.

Mané sér væntanlega ekki eftir ákvörðuninni því hann hefur verið í stóru hlutverki hjá afar sigursælu liði Liverpool á meðan United hefur átt erfitt uppdráttar á síðustu árum.

mbl.is