Ég elska ykkur og mun sakna ykkar

Sadio Mané kveður Liverpool og stuðningsmenn félagsins.
Sadio Mané kveður Liverpool og stuðningsmenn félagsins. AFP/Oli Scarff

Sadio Mané er formlega genginn til liðs við Þýskalandsmeistara Bayern München eftir sex frábær ár hjá enska félaginu Liverpool. Mané kveður Liverpool og stuðningsmenn þess með söknuði.

„Allir sem yfirgefa Liverpool eru alltaf að fara að sakna stuðningsmannanna því eru þeir bestu í heimi, það hef ég alltaf sagt. Ég naut tíma míns og að spila hér.

Að mínu mati gefur það manni alltaf svo mikinn kraft að spila á Anfield vegna stuðningsmannanna. Þannig að ég mun sannarlega sakna ykkar, ég elska ykkur,“ sagði Mané í kveðjuviðtali við heimasíðu Liverpool.

Hann kvaðst munu snúa aftur til Liverpool einn daginn en þá sem stuðningsmaður.

„Ég á ennþá húsið mitt í Liverpool þannig að ég mun að sjálfsögðu koma til baka. Ég myndi elska það að koma aftur einn daginn og heilsa upp á stuðningsmennina og auðvitað horfa á Liverpool spila.

Hvað mig varðar verð ég aðdáandi Liverpool númer eitt, á eftir stuðningsmönnunum!“

mbl.is