Newcastle að kaupa hollenskan miðvörð

Sven Botman (t.h.) í leik með Lille á síðasta tímabili.
Sven Botman (t.h.) í leik með Lille á síðasta tímabili. AFP/Denis Charlet

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United hefur komist að samkomulagi við franska félagið Lille um kaup á hollenska miðverðinum Sven Botman.

Newcastle reyndi að kaupa Botman í janúar síðastliðnum en hafði þá ekki erindi sem erfiði, ekki frekar en AC Milan sem var þá einnig áhugasamt.

BBC Sport greinir frá því að kaupverðið fyrir hinn 22 ára gamla Botman sé 30 milljónir punda.

Hann fór fyrst almennilega að vekja athygli þegar hann stóð sig frábærlega með Lille tímabilið 2020/2021 er liðið stóð óvænt uppi sem Frakklandsmeistari.

Newcastle festi í gær kaup á enska landsliðsmarkverðinum Nick Pope frá Burnley, sem féll niður í ensku B-deildina á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert