Chelsea að skáka Arsenal um Leedsarann

Raphinha er afar eftirsóttur.
Raphinha er afar eftirsóttur. AFP/Adrian Dennis

Enska knattspyrnufélagið Chelsea leiðir nú kapphlaupið um brasilíska vængmanninn Raphinha, leikmann Leeds United.

Nágrannar Chelsea frá Lundúnum, Arsenal, voru taldir líklegastir til að hreppa hnossið en samkvæmt félagaskiptasérfræðingnum Fabrizio Romano hefur Leeds samþykkt tilboð Chelsea upp á 60-65 milljónir punda, upphæð sem inniheldur árangurstengdar greiðslur.

Á twitteraðgangi sínum í kvöld segir Romano að síðasta tilboði Arsenal í Raphinha hafi verið hafnað og að Barcelona hafi einnig verið áhugasamt en að fjárhagserfiðleikar Börsunga hafi gert þeim það með öllu ómögulegt að bjóða jafn háa upphæð og Chelsea.

Viðræður Chelsea við Raphinha um kaup og kjör standa nú yfir.

Sky Sports kveður ekki jafn fast að orði og Romano og segir Chelsea hafa boðið 50 milljónir punda í Raphinha, sem sé nær því sem Leeds meti hann á en sú upphæð sem Arsenal hefur boðið. Ekki er tekið fram hvort Leeds hafi samþykkt tilboðið.

Arsenal sé þó ekki búið að gefast upp og muni leggja fram annað tilboð í leikmanninn.

mbl.is