Enskur landsliðsmarkvörður til Palace

Sam Johnstone er kominn til Crystal Palace.
Sam Johnstone er kominn til Crystal Palace. Ljósmynd/Twitter/@CPFC

Enski landsliðsmarkvörðurinn Sam Johnstone hefur skrifað undir fjögurra ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace. Kemur hann á frjálsri sölu frá B-deildarliðinu West Bromwich Albion.

Johnstone hefur verið á mála hjá WBA undanfarin fjögur ár en hafði þar á undan verið í herbúðum Manchester United þar sem hann var tíu sinnum lánaður út á átta árum, til að mynda til Aston Villa.

Hann á þrjá landsleiki að baki fyrir enska A-landsliðið og var í leikmannahópnum þegar England hafnaði í öðru sæti á EM 2020 síðastliðið sumar.

Johnstone hafði verið orðaður við endurkomu til Man. United og sömuleiðis Tottenham Hotspur en þar var hann fyrst og fremst hugsaður sem varamarkvörður.

Hjá Palace mun hann koma til með að berjast við Vicente Guaita og Jack Butland um aðalmarkvarðarstöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert