Klopp: Liverpool er félagið hans Salah, hann tilheyrir okkur

Jürgen Klopp og Mohamed Salah munu halda samstarfi sínu áfram.
Jürgen Klopp og Mohamed Salah munu halda samstarfi sínu áfram. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er hæstánægður með að tekist hafi að semja við egypska sóknarmanninn Mohamed Salah að nýju.

Salah, sem er þrítugur, skrifaði undir nýjan samning í gær sem gildir til sumarsins 2025.

Hann hefur raðað inn mörkum fyrir Liverpool síðan hann kom frá Roma fyrir fimm árum en Klopp telur að fram undan séu bestu ár Salah.

„Ég efast ekki um það að Mo eigi bestu ár sín eftir, og þá er nú mikið sagt því fyrstu fimm tímabilin hafa verið goðsagnakennd.

Hvað líkamlegt atgervi varðar er hann vél, hann er í ótrúlegu formi. Hann leggur hart að sér til þess að halda sér í því formi og uppsker eftir því.

Geta hans og færni eykst bara með hverju tímabili og ákvarðanatökur hans hafa sömuleiðis farið upp á næsta stig,“ sagði Klopp í samtali við heimasíðu Liverpool.

Hann bætti því við að allir hjá félaginu væru himinlifandi með fréttirnar.

„Allir liðsfélagar hans dást að honum. Sem þjálfarar áttum við okkur á því að við erum að vinna með sérstökum leikmanni. Og stuðningsmennirnir hafa krýnt hann konung.

Þetta eru bara frábærar fréttir. Ég brosi við tilhugsunina. Hann verður með okkur áfram og það þýðir að við getum áorkað meiru í sameiningu.

Þetta er besta mögulega ákvörðunin fyrir okkur og besta ákvörðunin fyrir hann sjálfan. Hann tilheyrir okkur finnst mér. Þetta er félagið hans núna,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert