Ronaldo vill yfirgefa United

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP/Lindsey Parnaby

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur tjáð stjórnarmönnum félagsins að hann vilji róa á önnur mið í sumar.

Frá þessu er greint í The Times í dag.

Þar segir að Ronaldo hafi farið fram á sölu frá félaginu og að hann óski þess að það samþykki sanngjörn tilboð sem berast í sig.

Ronaldo, sem er 37 ára gamall, sneri aftur til Man. United síðastliðið sumar eftir 12 ára fjarveru og skoraði 24 mörk í 38 leikjum í öllum keppnum á síðasta tímabili.

Þrátt fyrir að hafa átt gott tímabil sjálfur gekk Man. United bölvanlega og náði til dæmis ekki Meistaradeildarsæti.

Ronaldo vill ólmur spila áfram í Meistaradeild Evrópu og berjast um titla og samkvæmt The Times vegur það þungt í beiðni hans um að fara frá United, þar sem hann telur ekki nægilega miklar líkur á því að liðið geti gert það á síðustu árum ferils Ronaldos.

Uppeldisfélag hans Sporting frá Lissabon er sagt áhugasamt um að fá Ronaldo aftur í sínar raðir, 19 árum eftir að hann yfirgaf félagið, auk þess sem Roma er áhugasamt. Rómverjar leika hins vegar ekki í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

David Ornstein hjá The Athletic segir Napoli einnig áhugasamt.

mbl.is