Leikurinn sem Lennon gerði ódauðlegan

Ljósmyndin sem líklega hefur veitt Lennon innblástur. George Robledo nýbúinn …
Ljósmyndin sem líklega hefur veitt Lennon innblástur. George Robledo nýbúinn að skalla knöttinn fram hjá George Swindin. Jackie Milburn (nr. 9) fylgist spenntur með.

Úrslitaleikurinn um enska bikarinn 1952 milli Newcastle United og Arsenal var um margt merkilegur og skaut óvænt upp kollinum á plötuumslagi eins frægasta tónlistarmanns sögunnar 22 árum síðar, þar sem hann birti eigin teikningu af sigurmarkinu.

Úrslitaleikurinn í elsta knattspyrnumóti í heimi, enska bikarnum, vekur jafnan mikla athygli, víða um lönd. Það á meðal annars við um sigur Newcastle United á Arsenal vorið 1952, 1:0. Heima í Liverpool greip 11 ára gamall drengur blað og liti og teiknaði af nokkru listfengi mynd af sigurmarki vinstri-innherjans George Robledos, þegar hann skallaði knöttinn seint í leiknum framhjá George Swindin í marki Arsenal. Þetta sætir svo sem engum sérstökum tíðindum, börn eru alltaf að teikna fótboltamyndir, og væri ábyggilega ekki í frásögur færandi nú 70 árum síðar ef téður drengur hefði ekki heitið John Winston Lennon. Hann átti síðar eftir að verða einn frægasti og vinsælasti tónlistarmaður mannkynssögunnar með hljómsveit sinni, Bítlunum, og sem sólólistamaður.

John Lennon ásamt eiginkonu sinni, Íslandsvininum Yoko Ono, í Cannes …
John Lennon ásamt eiginkonu sinni, Íslandsvininum Yoko Ono, í Cannes vorið 1971. AFP


En hvers vegna heillaði leikur á milli Newcastle United og Arsenal 11 ára dreng í Liverpool? Hvorki Liverpool né Everton voru að spila. Jú, Lennon bjó fyrstu ár lífs síns á Newcastle Road númer 9 í Wavertree, Liverpool, ásamt Juliu móður sinni, og þar er tengingin ábyggilega komin. Talan 9 hafði raunar alla tíð sérstaka merkingu fyrir Lennon en eins og allir Íslendingar vita þá fæddist hann 9. október, daginn sem árlega er kveikt á Friðarsúlunni í Viðey, sem ekkja hans, Yoko Ono, lét koma upp í minningu Lennons og til að hvetja til friðar í þessum heimi.

Indíánar og kennarinn

Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að annar leikmanna Newcastle sé með númerið 9 á bakinu á teikningunni. Það myndi vera hinn frægi enski miðherji Jackie Milburn sem skoraði 201 mark fyrir Newcastle á árunum 1943-57 og var markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins, þangað til Alan Shearer skaut honum ref fyrir rass árið 2006. Milburn gerði einnig 10 mörk í aðeins 13 landsleikjum.

Umslag plötunnar Walls and Bridges með John Lennon frá árinu …
Umslag plötunnar Walls and Bridges með John Lennon frá árinu 1974.


Teikning hins 11 ára gamla Lennons hefði án ef svifið sína leið inn í tómið hefði hann ekki tekið sig til og skellt henni framan á umslag breiðskífu sinnar Walls and Bridges sem kom út í september 1974, ásamt fleiri teikningum. Þar stendur handskrifað: John Lennon June 1952 Age 11. Fyrir neðan fótboltamyndina er teikning af indíánum í Villta vestrinu, einnig gerð 1952, og tileinkuð Mimi Smith frænku hans, sem ól hann að mestu upp. Neðst er portrett af kennara Lennons heima í Liverpool, herra Bolt að nafni.

Þess má til gamans geta að húsið númer 9 við Newcastle Road, sem er steinsnar frá Penny Lane, sem Bítlarnir gerðu ódauðlega, seldist árið 2013 á tæplega hálfa milljón sterlingspunda enda þótt uppsett verð væri ekki nema 150 þúsund pund. Kaupandinn vildi ekki láta nafns síns getið á þeim tíma en hann ku halda mikið upp á Bítlana.

Nánar er fjallað um bikarúrslitaleikinn á Wembley 1952 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert