Barcelona samdi við Danann

Andreas Christensen er kominn til liðs við Barcelona.
Andreas Christensen er kominn til liðs við Barcelona. AFP/Liselotte Sabroe

Barcelona skýrði frá því fyrir stundu að félagið hefði gengið frá samningum við danska varnarmanninn Andreas Christensen sem kemur til katalónska knattspyrnustórveldisins frá Chelsea á Englandi.

Christensen hafnaði því að semja að nýju við Chelsea og var því laus allra mála hjá félaginu um mánaðamótin. Hann er annar miðvörðurinn sem enska félagið missir á þennan hátt í sumar því Antonio Rüdiger fór til Real Madrid á dögunum.

Christensen er 26 ára gamall og hefur verið í röðum Chelsea frá sextán ára aldri en þá kom hann til félagsins frá Bröndby. Hann var í láni hjá Mönchengladbach í Þýskalandi í tvö ár, 2015 til 2017, en á að baki 93 leiki með Chelsea í úrvalsdeildinni. Þá hefur hann spilað 56 landsleiki fyrir Danmörku og skorað í þeim tvö mörk.

Barcelona hefur því fengið tvo öfluga leikmenn í sínar raðir í dag, en Franck Kessie kom til félagsins frá AC Milan.

mbl.is