Ferguson yfirgefur Everton

Duncan Ferguson var alltaf áberandi á hliðarlínunni hjá Everton.
Duncan Ferguson var alltaf áberandi á hliðarlínunni hjá Everton. AFP

Duncan Ferguson, hinn litríki aðstoðarstjóri enska knattspyrnuliðsins Everton undanfarin ár, er hættur hjá félaginu þar sem hann stefnir nú að því að taka næsta skref á ferlinum.

Everton tilkynnti þetta í dag og hefur eftir Ferguson að hann þurfi að stíga til hliðar, sem hafi verið erfið ákvörðun, en hann bíði þess nú að takast á við frekari áskoranir. Eftir að hafa starfað sem aðstoðarstjóri hafi hann nú sjálfstraust til þess að fylgja því eftir og gerast sjálfur knattspyrnustjóri.

Duncan Ferguson er fimmtugur Skoti sem lék með Everton á árunum 1994 til 1998 og aftur 2000 til 2006, en hann skoraði 58 mörk í 230 leikjum með liðinu í úrvalsdeildinni. Þá lék hann sjö landsleiki fyrir Skotland en dró sig í hlé þaðan 26 ára gamall vegna ósættis við skoska knattspyrnusambandið, í kjölfar þess að hann fékk fangelsisdóm fyrir að skalla mótherja í leik með Rangers í Skotlandi. 

Innbrotsþjófurinn lenti á sjúkrahúsi

Ferguson, eða „Big Dunc“ eins og hann hefur lengi verið kallaður, þótti afar harður í horn að taka og hefur fjórum sinnum verið dæmdur fyrir líkamsárásir, til viðbótar við ýmis atvik innan vallar. Þá handtók hann innbrotsþjófa á heimili sínu árið 2001 með slíkum tilþrifum að annar þeirra þurfti að liggja á sjúkrahúsi í nokkra daga.

Ferguson hóf störf hjá aðalliði Everton árið 2014 og hefur gegnt starfi aðstoðarstjóra frá þeim tíma og unnið þar með Roberto Martínez, Ronald Koeman, David Unsworth, Sam Allardyce, Marco Silva, Carlo Ancelotti, Rafael Benítez og nú síðast Frank Lampard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert