Samvinna Youngs og Gerrards heldur áfram

Ashley Young leikur áfram með Aston Villa.
Ashley Young leikur áfram með Aston Villa. Ljósmynd/Aston Villa

Knattspyrnumaðurinn reyndi Ashley Young verður áfram í herbúðum Aston Villa en félagið tilkynnti í dag að samið hefði verið við hann að nýju til eins árs.

Young verður 37 ára gamall um næstu helgi og á framundan sitt tuttugasta tímabil í fremstu röð og þar af eru sextán í ensku úrvalsdeildinni. Hann lék fyrst með Watford, þá Aston Villa í fimm ár, með Manchester United í níu ár og svo með Inter Mílanó á Ítalíu í tvö ár áður en hann kom til Villa sumarið 2021.

Hann var fyrirliði United um árabil og varð þar enskur meistari árið 2013, og vann síðan ítalska meistaratitilinn með Inter seinna tímabilið þar.

Samtals á Young að baki 645 mótsleiki á ferlinum með félagsliðum sínum og hefur skorað í þeim 84 mörk. Hann lék 25 leiki með Villa á síðasta tímabili, 24 þeirra í úrvalsdeildinni.

Young lék 39 landsleiki fyrir Englands hönd á árunum 2007 til 2018 og skoraði í þeim sjö mörk.

Hjá Aston Villa leikur Young nú undir stjórn gamals erkióvinar en Steven Gerrard var fyrirliði Liverpool fyrstu fjögur árin sem Young var leikmaður Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert