Hollendingur kominn á Old Trafford

Tyrell Malacia í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu í vor með Feyenoord …
Tyrell Malacia í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu í vor með Feyenoord gegn Roma. AFP/Ozar Kose

Manchester United staðfesti rétt í þessu kaupin á hollenska knattspyrnumanninum Tyrell Malacia frá Feyenoord.

Malacia er 22 ára gamall vinstri bakvörður, uppalinn hjá Feyenoord og hefur verið í röðum félagsins frá níu ára aldri. Hann hefur leikið fimm A-landsleiki fyrir Holland og leikið með öllum yngri landsliðum þjóðar sinnar en frá 2017 hefur hann leikið 98 deildarleiki fyrir Feyenoord. Fyrsta landsleikinn lék hann gegn Svartfjallalandi í september 2021.

Kaupverðið er talið vera 14,7 milljónir punda en getur hækkað í 17 milljónir að uppfylltum ýmsum skilyrðum, og samningur hans er til ársins 2026.

Malacia var í liði Feyenoord sem lék úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu gegn Roma í vor en beið lægri hlut. Hann var valinn í úrvalslið keppninnar fyrir tímabilið 2021-22. 

Þar með hefur landi hans Erik ten Hag keypt sinn fyrsta leikmann eftir að hann tók við starfi knattspyrnustjóra Manchester United í vor. Ten Hag þekkir vel til Malacia eftir að hafa verið andstæðingur hans í hollensku deildinni sem knattspyrnustjóri Ajax undanfarin ár. 

mbl.is