Origi kominn til Ítalíu

Divock Origi fagnar marki fyrir Liverpool.
Divock Origi fagnar marki fyrir Liverpool. AFP/Paul Ellis

Belgíski knattspyrnumaðurinn Divock Origi er kominn til ítölsku meistaranna AC Milan sem fá hann án greiðslu frá Liverpool. Hann hefur samið við Ítalina til fjögurra ára.

Samningur Belgans við enska félagið rann út um mánaðamótin en hann hefur verið í röðum Liverpool í átta ár. Þar af var hann sitt hvort tímabilið í láni hjá Lille í Frakkland og Wolfsburg í Þýskalandi en lék samfleytt með Liverpool síðustu fjögur árin.

Hann átti lengst af ekki fast sæti í liðinu en spilaði mest tímabilin 2016-17 og 2019-20. Alls lék hann 176 mótsleiki fyrir Liverpool og skoraði 41 mark en þar af voru 107 mörk og 22 mörk í úrvalsdeildinni.

Origi, sem er 27 ára gamall, var gríðarlega vinsæll hjá stuðningsfólki Liverpool en hann átti það til að skora afar mikilvæg mörk fyrir liðið, þar á meðal tvö mörk i sigrinum ótrúlega á Barcelona, 4:0, vorið 2019 og annað markanna í 2:0 sigrinum á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar stuttu síðar.

mbl.is