Ronaldo áfram fjarverandi og æfir í Portúgal

Óvíst er með hvaða liði Cristiano Ronaldo spilar á næsta …
Óvíst er með hvaða liði Cristiano Ronaldo spilar á næsta tímabili. AFP/Patricia De Melo Moreira

Annan daginn í röð mætti Cristiano Ronaldo ekki til æfinga með Manchester United í morgun og þar með aukast enn vangavelturnar um að hann sé á leiðinni frá félaginu.

Ronaldo fékk frí frá fyrstu æfingu tímabilsins í gær, vegna fjölskylduástæðna eins og það var kynnt hjá Manchester United. Hann sást heldur ekki á Carrington-æfingasvæðinu í morgun en Sky Sports segir að hann æfi þessa dagana á Cidade do Futebol, æfingasvæði portúgalska knattspyrnusambandsins.

Fram hefur komið að Ronaldo hafi tilkynnt United að hann vilji losna frá félaginu í sumar ef hann fái gott tilboð. Sky Sports segir að umboðsmaður hans, Jorge Mendes, hafi undanfarnar vikur unnið að því að útvega mögulegum nýjum félögum alls kyns upplýsingar um auglýsingavirði Portúgalans.

Götublaðið The Sun segir í morgun að Todd Boehly, nýr eigandi Chelsea, sé mjög áhugasamur um að fá Ronaldo tilfélagsins og Bayern München, Barcelona og Napoli eru öll nefnd til sögunnar. Manchester United hefur til þessa staðið fast á því að Ronaldo sé ekki til sölu.

Manchester United fer til Taílands í æfingaferð á föstudaginn og þaðan til Ástralíu og óvissa ríkir um hvort Ronaldo verði með í för.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert