Úrvalsdeildarleikmaðurinn grunaður um tvær nauðganir til viðbótar

AFP/Oli Scarff

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, sem var handtekinn í gær grunaður um nauðgun, var einnig handtekinn og yfirheyrður vegna tveggja nauðgana til viðbótar gagnvart annarri konu.

Leikmaðurinn hefur ekki verið nefndur á nafn í breskum fjölmiðlum af lagalegum ástæðum en greint var frá því að hann sé að nálgast þrítugt.

Í gær tilkynntu lögregluyfirvöld á Englandi að maðurinn hafi verið handtekinn í Norður-Lundúnum vegna meintrar nauðgunar hans á konu á þrítugsaldri, nauðgun sem er sögð hafa átt sér stað í júní á þessu ári.

Í dag sendu lögregluyfirvöld frá sér uppfærða yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars:

„Á meðan maðurinn var í gæsluvarðhaldi var hann handtekinn að nýju, grunaður um tvær nauðganir til viðbótar sem eru sagðar hafa átt sér stað í apríl og júní 2021, gagnvart annarri konu á þrítugsaldri.

Í kjölfarið er búið að sleppa honum lausum gegn tryggingu þar til í ágúst. Rannsókn á atvikum heldur áfram.“

Leikmaðurinn var í gæsluvarðhaldi í 30 klukkustundir áður en hann fékk sig lausan gegn tryggingu.

Samkvæmt The Telegraph er um að ræða lykilmann hjá úrvalsdeildarliði sem er eða hafði verið áætlað að taki þátt með landsliði sínu á HM 2022 í Katar í nóvember næstkomandi.

Ekki liggur fyrir hvort leikmaðurinn taki þátt í undirbúningstímabilinu með liði sínu fyrir næsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni, sem hefst þann 5. ágúst.

mbl.is