Tottenham skoraði fjögur – misjafnt gengi nýliðanna

Dejan Kulusevski skoraði og lagði upp.
Dejan Kulusevski skoraði og lagði upp. AFP/Chris Radburn

Tottenham byrjar tímabilið í ensku úrvalsdeildinni vel en liðið vann 4:1-heimasigur á Southampton í fyrstu umferðinni í dag.

James Ward-Prowse kom Southampton yfir strax á 12. mínútu en Ryan Sessegnon jafnaði á 21. mínútu.

Eftir það tók Tottenham völdin og Eric Dier sá til þess að heimaliðið var með 2:1-forskot í hálfleik. Mohammed Salisu skoraði sjálfsmark á 61. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar gulltryggði Dejan Kulusevski 4:1-sigur Tottenham.

Newcastle hafði betur gegn Nottingham Forrest.
Newcastle hafði betur gegn Nottingham Forrest. AFP/Nigel Roddis

Nýliðar Bournemouth fara afar vel af stað en liðið vann 2:0-heimasigur á Aston Villa. Jefferson Lerma kom Bournemouth yfir strax á 2. mínútu og Kieffer Moore gulltryggði sigurinn á 80. mínútu.

Nýliðar Nottingham Forest fara ekki eins vel af stað, því liðið tapaði á útivelli gegn Newcastle. Fabian Schär skoraði fyrra markið á 58. mínútu og Callum Wilson bætti við öðru markinu á 78. mínútu.

Þá vann Leeds sterkan 2:1-heimasigur á Wolves. Daniel Podence kom Wolves yfir strax á 6. mínútu en Spánverjinn Rodrigo jafnaði á 24. mínútu eftir mistök hjá Jose Sá í marki Wolves. Rayan Aït Nouri varð fyrir því óláni að skora sigurmarkið í eigið mark á 74. mínútu eftir fyrirgjöf frá Patrick Bamford og þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert