Úrslitin voru það besta við þennan leik

Klopp á hliðarlínunni í gær.
Klopp á hliðarlínunni í gær. AFP/Justin Tallis

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool var svekktur eftir 2:2-jafntefli gegn nýliðum Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Aleksandar Mitrovic reyndist Liverpool-mönnum erfiður en hann skoraði bæði mörk Fulham. Darwin Nunez og Mo Salah skoruðu mörk Liverpool.

„Úrslitin voru það besta við þennan leik. Við fáum eitt stig þrátt fyrir mjög lélega frammistöðu.

Við byrjuðum ekki eins og við ætluðum okkur. Við erum vanir að taka yfir leiki en við náðum því ekki, við vorum ekki nógu nákvæmir né fljótir.“

Thiago fór meiddur af velli í leiknum og er miðja Liverpool því orðin heldur þunnskipuð.

„Svona lagað gerist og það er ekkert sem við getum gert í því. Við eigum átta miðjumenn en einhverjir þeirra eru frá. Þetta er ekki góð staða en við stressum okkur ekki á þessu.“

mbl.is